„Enginn getur allt en allir geta eitthvað“

Fólkið á bak við SUP eru Hadda og Adam. Búsett í Barcelona með þrjú börn og hundinn Molly. SUP eða Stop Using Plastic eins og skammstöfunin stendur fyrir er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum vörum sem draga úr notkun á einnota plasti.

Við höfum verið búsett í Barcelona í fimm ár, en komum hingað þegar Hadda fór í mastersnám í alþjóðaviðskiptum. Okkur líkar mjög vel í borginni og börnunum líður vel, þannig að við verðum hér eitthvað áfram. Annars hjálpa krakkarnir okkar líka til við SUP og eru okkar dyggustu stuðningsmenn.

Hvernig kom það til að þið stofnið SUP?

Adam hafði gengið með þessa hugmynd í kollinum þar sem að hann hafði fyrir þó nokkrum árum farið að nota bambus tannbursta, þá vorum við búsett í London og umhverfisvænar vörur mun auðfáanlegri en á Spáni. Við reyndum að panta hina og þessa bursta hingað til Barcelona þar sem við fengum þá ekki svo auðveldlega hér en við vorum aldrei nógu ánægð með þá. Spánn er mun aftar í öllu sem viðkemur endurvinnslu og umhverfisvernd þannig að við sáum að kannski væri þarna tækifæri fyrir okkur að hafa áhrif.

Tannburstarnir voru mis góðir og því fór Adam að reyna að finna framleiðanda sem gæti framleitt tannbursta sem við værum sátt við.  Það tók okkur langan tíma að finna rétta fólkið og fá það sem við vildum. Við byrjuðum á að hanna fyrsta burstann og umbúðir og ætluðum að sjá hvernig þetta kæmi til með að líta út. Hingað komu svo 1000 tannburstar einn góðan veðurdag fyrir ári síðan og þá var ekkert annað að gera en að selja þá. Við vorum ekki búin að opna vefinn okkar www.stopusingplastic.com en Hadda seldi alla burstana á 2 klukkustundum á Facebook.

Þetta staðfesti það sem við vorum að vona, að fólk hefði áhuga á umhverfisvænum vörum en þær þyrftu að vera aðgengilegar og á góðu verði.

Við endurhönnuðum boxið sem tannburstarnir koma í og lögðum inn aðra pöntun. Þessi viðbrögð gáfu okkur svo sannarlega byr undir báða vængi og við höfum haldið ótrauð áfram síðan, hugmyndirnar eru endalausar og vonandi fáum við tækifæri til að koma með fleiri umhverfisvænar vörur fyrir heimilið á markað.

Af hverju þessi áhersla á plastleysi?

Plast er auðvitað stórkostleg ógn við umhverfið í dag og okkur hefur alltaf langað að reyna að hafa einhver áhrif á umhverfið í kringum okkur.  Við trúum því að allir séu til í að gera vel við jörðina okkar en stundum þarf að auðvelda fólki það. Það þarf ekki að snúa öllu við á einum degi.

En það hefur mikil margföldunaráhrif ef bara allir t.d. hættu að nota sogrör, uppþvottabursta og tannbursta úr plasti.

Svo má taka út plastpoka auðveldlega og hætta t.d sem mest að kaupa grænmeti í plasti. Þetta eru bara örfá dæmi en svo heldur maður áfram skref fyrir skref. Þannig kemst þetta uppí vana og verður  auðveldara og auðveldara.

Einkunnarorð SUP?

„Enginn getur allt, en allir geta eitthvað”. Bara að byrja, einn dag í einu og kenna unga fólkinu að hugsa um umhverfið.

Finnst ykkur þið sjá mun á viðhorfi fólks til umhverfismála undanfarið?

Já, okkur finnst umræðan orðin almennari og sjálfsagðari, það eru ekkert mörg ár síðan við þóttum skrítin að koma með taupoka í búðina. Núna finnst manni alveg ómögulegt að biðja um poka ef maður gleymir t.d taupokanum heima. Það er  líka alveg orðið skýrt að við verðum að breyta hlutum til að breyta stöðunni í umhverfismálum á heimsvísu. Stundum þarf líka að brjóta hluti aðeins niður í smærri þætti og tala um hlutina þannig að allir skilji. Þannig hefur okkur t.d. fundist nýr umhverfisráðherra á Íslandi hafa breytt umræðunni aðeins, þannig að þetta sé ekki fyrir einhvern lokaðan hóp, með því að tala bara mjög skýrt um umhverfismálin, hvað er að gerast og hvað þarf að gera næstu áratugina. Við getum öll gert eitthvað.

Nýjar vörur frá SUP
Hvert stefnið þið með SUP?

Okkur langar til að fjölga vöruúrvali okkar og erum með nokkra hluti á teikniborðinu. Á þessu fyrsta ári höfum við farið úr að framleiða eina gerð af tannbursta í að framleiða fjóra mismunandi tannbursta fyrir börn og fullorðna ásamt aukahlutum, t.d. ferðahulstur, tannburstastand, sápur og sogrör. Við höfum framleitt tannbursta fyrir tannlækna og fyrirtæki og á næstu vikum komum við með nýjar vörur sem vonandi verður vel tekið.

Við höfum komið SUP í sölu í fjórum löndum í  50-60 verslunum. Okkur langar að koma þessum vörum víðar og óskum þess að allir geti valið umhverfisvænar vörur fyrir heimilið sitt. 

Þannig að já plastlaus heimsyfirráð eru á langtímaplaninu 🙂

//

Höfuðmynd sýnir Höddu og Adam. 📷: Benjamin Mio, 7 ára
Aðrar myndir, 📷: Adam

//

Vörurnar frá SUP fást hjá Vistveru, í verslun okkar í Grímsbæ við Bústaðaveg eða á vefnum:
[button url=”https://vistvera.is/vorumerki/sup/” style=”tksc-btn-primary” size=”tksc-btn-small” type=”square” target=”_blank”] Skoðaðu úrvalið frá SUP [/button]

Plastlausa

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.