Vistvera er krambúð með ýmsar neysluvörur, helst alveg plastlausar, en einnig heimilisvörur úr náttúruefnum. Sem dæmi um plastlausar neysluvörur má nefna hársápustykki (sjampóstykki), sápustykki, húðkrem, raksápu, sólarvörn, svitalyktareyði, tannbursta og varasalva. Við bjóðum líka upp á eldhúsáhöld úr tré, vefnaðarvöru úr bómull og fleira til heimilisins. Hjá okkur fást einnig fjölnota túrnærbuxur.

Við viljum sérstaklega bjóða uppá vörur sem draga úr einnota lífsstíl og erum því til að nefna einhver dæmi með margnota grænmetispoka úr lífrænni bómull sem koma í staðinn fyrir litlu pokana í grænmetisdeildinni. Einnig erum við með tíðabikar sem kemur í stað einnota dömubinda og talsvert úrval af ítlátum til geymslu matvæla s.s. nestisbox og bývaxklúta sem geta komið í stað plastfilma og einnota skyndibita umbúða.

Umbúðir eru sem allra minnstar og þá aðallega pappi sem má endurvinna (en brotnar líka niður). Pappinn er oft úr endurunnum pappa þar að auki.

Í Vistveru fæst eitthvað af umbúðalausum vörum sem keyptar eru eftir vigt svosem handsápa, uppþvottalögur, argan olía, húðkrem og við erum alltaf að auka úrvalið í áfyllingarbarnum.

Smám saman erum við að auka vöruúrvalið og langar gjarnan að bjóða uppá vörur sem framleiddar eru hér á landi til að draga úr innflutningi, einkum og sérílagi ef notaður er afgangs efniviður. Við hvetjum alla sem eru með ábendingar um handverk, hönnun eða einfaldlega vörur sem gætu átt vel heima í Vistveru til að hafa samband við okkur t.d. á info@vistvera.is eða í gegnum Facebook síðu Vistveru.

Aðstandendur Vistveru eru þrjár vinkonur sem kynntust sem nágrannar eða í gegnum fjölskyldutengsl. Við höfum ólíkan bakgrunn, en eigum sameiginlegan áhugan á einfaldari lífstíl og umhverfismálum, þ.á.m. því sem við getum gert sem einstaklingar í okkar daglega lífi til að minnka umhverfisfótspor okkar og það rusl sem frá okkur fellur, til dæmis plast. Eins og aðrir í sömu sporum fannst okkur ekki auðvelt að nálgast þær vörur sem við vildum helst nota, eins og plastlausar sápur, eyrnapinna, svitalyktareyði, tannbursta og annað sem við þurfum á að halda en skilur eftir sig rusl. Okkur langaði því til að opna verslun og auka aðgengi að slíkum umhverfisvænum vörum.

Við hlökkum til að sjá þig í umhverfisvænu versluninni í Grímsbæ, 108 Reykjavík og í Firðinum, Hafnarfirði.

 

Hafa samband:

Vistvera ehf.
Grímsbær,
Efstalandi 26 
108 Reykjavík
Opið alla virka daga kl. 12-18 og laugardaga kl. 11-15

Fjörður Verslunarmiðstöð 
Fjarðargötu 13-15
220 Hafnarfjörður
Opið alla virka daga kl. 12-18 og laugardaga kl. 11-16

___
info@vistvera.is
Sími verslun: 537 8478
VSK númer 137377
–––
Kt. 490320-2610
rnr. 515-26-5845